Skilmálar
SKILMÁLAR
Hér á eftir fara skilmálar þeir sem gilda um notkun og aðgang að Signet. Signet er kerfi í eigu og rekstri Advania Ísland ehf. („Advania”) og samanstendur af eftirfarandi vörum:
Signet fyrir rafrænar undirritanir
Signet transfer fyrir öruggan gagnaflutning og gagnamóttöku
Signet team fyrir umsýslu skjala í undirritunarferli fyrir teymi
Signet forms fyrir stöðluð eyðublöð til undirritunar
Signet tímastimplanir sem er vottuð tímastimplunarþjónusta
Tilvísun til Signet í skilmálum þessum á við um allar ofangreindar vörur, eins og við á. Um þjónustu Signet gilda einnig almennir viðskiptaskilmálar Advania. Skilmálar Signet teljast sértækir viðskiptaskilmálar gagnvart almennum viðskiptaskilmálum Advania. Almennu viðskiptaskilmála Advania má finna á heimasíðu Advania, www.advania.is. Um þjónustu Signet gildir einnig persónuverndarstefna Signet. Persónuverndarstefnu Signet má finna á heimasíðu Signet, www.signet.is.
Skilmálar Signet eru gefnir út þann 1. desember 2023 og gilda frá þeim degi.
GILDISSVIÐ OG GILDISTAKA
Skilmálar þessir eru sérstakir notendaskilmálar á milli Advania og notanda, og veitir Advania notanda takmarkað leyfi til notkunar á Signet í samræmi við þá skilmála og skilyrði sem hér eru sett fram.
Skilmálar þessir taka gildi gagnvart áskrifanda og notanda þegar viðkomandi samþykkir skilmála á vef Signet þá eða þegar aðili notar kerfið í fyrsta sinn, sá atburður sem fyrr kemur. Ef notandi samþykkir þessa skilmála fyrir hönd lögaðila staðfestir hann að hafi stöðuumboð eða aðra heimild til að skuldbinda lögaðilann og skulu skilmálar þessir þá bæði gilda fyrir lögaðilann og fyrir þann sem aðganginn nýtir.
UM SIGNET
Signet er stöðluð hugbúnaðarlausn og áskilur Advania sér rétt til að ákveða hvaða virkni kerfið býður upp á hverju sinni.
SKILGREININGAR
Áskrifendur: Með hugtakinu er átt við einstakling eða lögaðila í áskriftarþjónustu Signet.
Eigandi skjals: Er sá notandi sem hleður inn skjali og sendir það til undirritunar.
Einkvæmt auðkenni (e. unique identifier): Einkvæmur strengur sem notaður er til að bera kennsl á einstakling eða lögaðila. Kennitala er dæmi um einkvæmt auðkenni.
Fyrirtækjakerfisstjóri: Með hugtakinu er átt við notanda á vegum áskrifanda sem hefur réttindi í kerfinu til að vinna upplýsingar um notendur og hópa áskrifanda. Ef áskrifandi er lögaðili skal fyrirtækjakerfisstjóri hafa stöðuumboð fyrir hönd lögaðilans eða aðra heimild til að skuldbinda lögaðilann og skulu skilmálar þessir þá bæði gilda fyrir lögaðilann og fyrir þann sem aðganginn nýtir.
Gögn: Með hugtakinu er átt við tölvuskrár sem sendandi gagna hleður inn til rafræns flutnings í kerfinu og innihalda t.d. hvers konar samninga, yfirlýsingar, skjöl eða annars konar efni.
Kerfið: Með hugtakinu er átt við Signet.
Langtímaundirritun: Langtímaundirritun inniheldur staðfestingu frá útgefanda skilríkjanna á í hvaða stöðu rafrænu skilríkin voru við undirritun. Langtímaundirritun inniheldur einnig tímastimpil frá traustum útgefanda tímastimplana.
Móttakandi gagna: Er notandi sem sendandi gagna skráir sem móttakanda fyrir sendingu gagna eða notandi sem er í skilgreindum móttökuhóp.
Notandi: Með hugtakinu notandi er átt við hvern þann aðila sem notar kerfið. Heimild til aðgangs er bundin einkvæmu auðkenni notanda. Notandi þarf að vera sjálfráða og fjárráða.
Notkun: Hugtakið hefur þá merkingu sem því er gefið í grein um notkun í skilmálum þessum.
Rafrænn flutningur: Með hugtakinu er átt við flutning gagna með rafrænum hætti í gegnum kerfið. Rafrænn flutningur er tækni til að senda gögn yfir netið til einstaklinga eða skilgreindra hópa.
Rafræn undirskrift: Með hugtakinu er átt við undirritun skjala með rafrænum hætti í gegnum kerfið í samræmi við kröfur laga sem settar eru fram í 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014. Rafræn undirskrift er tækni til að sanna tengsl á milli gagna og einstaklinga eða lögaðila. Undirskriftin er framkvæmd með rafrænum skilríkjum sem byggja á vottuðum dreifilykli og einkalykli notanda. Við rafræna undirritun er tætigildi skjals dulritað með einkalykli notanda sem síðan er tengt við vottaðan dreifilykil notanda skilríkjanna. Rafræna undirritunin samanstendur því af dulrituðu tætigildi viðkomandi skjals ásamt vottuðum dreifilykli notanda.
Sendandi gagna: Er notandi sem hleður inn gögnum og sendir þau til móttakanda eða skilgreinds hóps.
Signet: Með hugtakinu er átt við vörur sem seldar eru undir merkjum Signet, sem er í eigu Advania, þ.e. Signet rafrænar undirritanir, Signet transfer, Signet team, Signet forms og Signet tímastimplunarþjónusta.
Skilmálar: Með hugtakinu skilmálar er átt við skilmála þessa.
Skjöl: Með hugtakinu er átt við hvers konar samninga, yfirlýsingar, gögn, skjöl eða annars konar efni sem eigandi skjals hleður inn til rafrænnar undirritunar.
AÐGANGUR OG NOTENDAUPPLÝSINGAR
Innskráning í kerfið og sending og móttaka gagna fer fram með rafrænum skilríkjum. Réttur notanda til að fá aðgang að og nota þjónustuna er bundinn einkvæmu auðkenni og er notanda ekki heimilt að flytja þann rétt til annars manns eða lögaðila. Þannig er notanda ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að veita öðrum rétt til að nýta aðgang sinn að kerfinu.
Fyrirtæki geta valið um að notendur þeirra að Signet team geti auðkennt sig með þeim aðgangi sem viðkomandi fyrirtæki hefur skilgreint fyrir notanda sinn í Microsoft Azure Active Directory (Azure AD). Í þeim tilfellum ber fyrirtæki notandans ábyrgð á eigin öryggisstillingum í Azure AD ásamt því að bæði stofna og taka út aðganga að Signet team fyrir starfsmenn sína.
Notandi getur skráð upplýsingar um netfang og símanúmer á vef Signet. Notandi getur hvenær sem er eytt út upplýsingum um netfang og símanúmer sitt. Á „Mínum upplýsingum“ á Signet getur notandi valið að heimila birtingu netfangs fyrir áskrifendum Signet.
Í gegnum innskráningu á Signet hafa notendur í áskrift aðgang að kennitölum úr þjóðskrá til þess að geta flett upp væntanlegum undirritendum skjala.
Notandi skilur og samþykkir að hann er ábyrgur fyrir því að tryggja leynd þeirra rafrænu skilríkja sem gera notanda kleift að fá aðgang að kerfinu. Ef notandi verður á einhvern hátt var við að einhver óviðkomandi hafi komist yfir framangreindar upplýsingar, samþykkir notandi að hafa strax samband við útgáfuaðila skilríkjanna og óska eftir að viðkomandi skilríkjum sé lokað til þess að koma í veg fyrir að þau séu nýtt af einhverjum óviðkomandi á vefsvæði kerfisins.
Advania áskilur sér rétt til að meina aðilum að stofna og eða nota aðgang að kerfinu.
NOTKUN
Til notkunar á kerfinu telst upphleðsla gagna, skoðun, upplýsingaöflun, rafræn undirritun, rafrænn flutningur gagna og hvers kyns önnur nýting þeirrar þjónustu sem í boði er á vefsvæði Signet á hverjum tíma. Öll notkun kerfisins takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist, ásamt þeim upplýsingum og þjónustu sem boðið er upp á á hverjum tíma.
SKYLDUR NOTANDA
Notandi, sem eigandi gagns, er ábyrgur fyrir því að hlaða inn gagni til undirritunar eða gagnaflutnings. Eiganda ber að fullu ábyrgð á því að sannreyna að t.d. gagn hafi verið undirritað, eða að það hafi skilað sér til réttmæts viðtakanda. Eigandi ber jafnframt ábyrgð á því að gögn séu undirrituð eða sótt innan þess tímaramma sem þeim eru sett.
Í sumum tilfellum getur notandi stillt þjónustuna þannig að gögn úr Signet séu áframsend og vistuð á tilteknu svæði, sem skilgreint er af notanda og er alfarið á ábyrgð hans. Notandi ber eftir sem áður ábyrgð á því að fylgjast með og tryggja að gögn séu sótt innan tilgreinds tímaramma í Signet. Advania ber ekki ábyrgð á því að gögn sem notandi velur að áframsenda úr kerfinu séu sótt innan tímarammans, t.d. ef gagn hefur ekki skilað sér á skilgreint svæði í eigu notanda af einhverjum ástæðum.
Eigandi gagns er einn ábyrgur fyrir efni og innihaldi þess. Hann skuldbindur sig til að nota kerfið þannig að ekki brjóti á bága við ákvæði þessara skilmála.
Notandi er ábyrgur fyrir því að notendaupplýsingar hans, þar á meðal netfang og/eða símanúmer, séu ávallt réttar.
VARÐVEISLA GAGNA
Gögn notenda lifa að hámarki í 90 daga frá því að gögnum er hlaðið inn sé þeim ekki eytt af höfundi innan þess tímaramma. Að þeim tíma liðnum eru þau fjarlægð úr kerfinu. Fyrir þann tíma ber notandi ábyrgð á að sækja gögn og varðveita.
GJALD
Aðgangur að kerfinu er gjaldfrjáls, en greiða þarf fyrir sendingu gagna eða að hafa móttökugátt í Signet transfer, sjá nánar í áskriftarsamningum og á heimasíðu Signet, www.signet.is.
RAFRÆNAR TILKYNNINGAR
Rafrænar tilkynningar frá kerfinu verða sendar á það netfang sem notandi hefur vistað í kerfinu á „Mínar upplýsingar“, þegar við á.
Með því að skrá sig fyrir aðgangi að kerfinu, samþykkir notandi að Advania megi senda notanda tilkynningar í tengslum við notkun kerfisins á skráð netfang notanda. Allir sem hafa aðgang að skráðu netfangi munu geta séð innihald þessara tilkynninga. Netfangið er ekki notað í markaðslegum tilgangi.
Sendandi gagna getur slegið inn netfang og/eða símanúmer fyrir móttakendur sem notað verður við vinnslu sendingarinnar, s.s. til að senda tilkynningar um gögnin þegar gögn eru send til einstaklinga.
Þegar gögn eru send á móttökuhóp fyrir Signet transfer er tilkynning send á netfang móttökuhópsins sem skráð hefur verið af fyrirtækjakerfisstjóra.
Það er á ábyrgð notanda að tryggja að upplýsingar um netfang og/eða símanúmer séu rétt skráðar eða slegnar inn í kerfinu.
ÞJÓNUSTA VIÐ NOTENDUR
Leiðbeiningar um notkun Signet er að finna á vefslóðinni www.signet.is. Notendur geta einnig sent fyrirspurnir á netfangið signet-help@advania.is.
VINNSLA GAGNA
Öll gögn eru vistuð á dulrituðu formi. Gögn eru dulrituð í kerfinu á þann hátt að notendur einir geta séð sín gögn. Advania hefur engan aðgang til að skoða gögn notenda.
ÁBYRGÐARTAKMARKANIR
Advania ábyrgist ekki að tiltekinn árangur náist af notkun á kerfinu að öðru leyti en tekið er fram í skilmálum þessum. Notendur skrá sig og nota þá þjónustu sem í boði er í kerfinu á eigin ábyrgð.
Advania ábyrgist ekki efni og innihald gagna sem notendur hlaða upp í kerfið. Advania ábyrgist ekki að móttakendur sæki gögn með réttum hætti og að gögn séu sótt innan þess tímaramma sem settur er. Jafnframt ábyrgist Advania ekki að sendingar gagna takist í öllum tilfellum. Það kann að koma fyrir að sending gagna takist ekki vegna utanaðkomandi atvika, atvika sem varða galla, bilun eða annars konar rof í hugbúnaðinum, eða atvika sem varða þann sem senda skal og er það alfarið á ábyrgð sendanda gagna að tryggja að gögn hafi verið sótt af þeim sem ætlunin var að senda þau til.
Aðgangur að kerfinu gæti rofnað af og til af ýmsum ástæðum, t.d. vegna vélbúnaðarbilana, tæknilegra bilana, hugbúnaðarvillna, kerfisuppfærslna, eða vegna aðgerða sem Advania kann að kjósa að grípa til. Advania ber ekki ábyrgð á tjóni sem slíkt kann að valda. Advania ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við vefsvæði, vafra eða stýrikerfi notanda eða tölvukerfi, eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda því að aðgerðir í kerfinu geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en til var ætlast s.s. vegna tæknibilana, villna í gögnum eða truflana í rekstri tölvukerfa. Advania ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði áskrifenda eða notanda eða af öðrum orsökum sem kunna að valda því að upplýsingar í kerfinu eru ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni.
TAKMÖRKUN OG AFMÖRKUN SKAÐABÓTASKYLDU
Advania ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda eða annars aðila með eða án umboðs notanda. Advania ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til rangra aðgerða notanda eða annars aðila. Advania ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h.
Advania ber eingöngu ábyrgð á beinu fjárhagstjóni viðskiptavinar sem rekja má til ólögmætrar háttsemi Advania eða aðila sem Advania ber ábyrgð á. Advania ber í engu tilviki ábyrgð á rekstrartapi viðskiptavinar og/eða þriðja aðila, né heldur óbeinu, tilviljanakenndu eða afleiddu tjóni slíkra aðila, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á hinu keypta eða til annarra ástæðna.
Utan þess sem greinir í skilmálum þessum skal ábyrgð Advania vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu, truflana, tafa, tjóns eða galla á þjónustu, hugbúnaði eða vélbúnaði sem verður í tengslum við samning aðila, takmarkast við jafnvirði þeirrar þóknunar sem viðskiptavinur hefur sannanlega greitt til Advania fyrir þjónustuna sem tjónið tengist á síðustu þremur mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón.
Framangreindar ábyrgðartakmarkanir gilda ekki að því marki sem ófrávíkjanleg lög kveða á um bann við takmörkun ábyrgðar.
FORCE MAJEURE
Hvorki Advania né viðskiptavinir þess eiga rétt til skaðabóta á hendur gagnaðila þegar vanefndir orsakast af óviðráðanlegum eða ófyrirséðum atvikum sem ekki eru til staðar við samningsgerð, svo sem vinnudeilum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, farsóttum, aðgerðum stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og sambærilegum óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.
HUGVERKARÉTTINDI
Allt innihald Signet, þar með talið útlitshönnun (t.d. texti, grafík, myndir, vörumerki), ljósmyndir, hugbúnaður, ritstýrt efni, tilkynningar og annað efni er varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar.
Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af höfundar- og vörumerkjavörðu efni Signet, hvort heldur sem er að hluta til eða heild, er með öllu óheimil.
AFRITUN, VÖKTUN OG ÖRYGGI
Það er með öllu óheimilt er að nýta þjónustu kerfisins til þess að taka þátt í, hvetja til, auglýsa eða hafa milligöngu um hvers kyns ólögmætar og eftir atvikum refsiverðar aðgerðir, aðgerðir með skaðlegan tilgang eða aðgerðir sem kunna að brjóta gegn almennu velsæmi.
Það er með öllu óheimilt að setja nokkurs konar skrá eða gögn á vefsvæði kerfisins sem gætu flokkast sem einhverskonar tölvuvírus, tölvuormur eða tróju hestur eða innihalda einhverskonar skaðlega eiginleika eða sem gæti á einhvern hátt truflað eðlilega virkni þjónustunnar.
Það er með öllu óheimilt að reyna á nokkurn hátt að sækja, birta eða greina (e. reverse engineer) á annan hátt undirliggjandi forritskóða (e. source code) út frá þeim hugbúnaði sem er notaður í kerfinu. Ef notandi fær af öðrum ástæðum aðgang að undirliggjandi forritunarkóða, s.s. vegna bilunar þá ber honum að tilkynna slíkt til vefstjóra signet-help@advania.is.
Það er með öllu óheimilt að nota neins konar sjálfvirkan hugbúnað, forrit eða annars konar sjálfvirkar aðferðir til að fá aðgang, afrita eða fylgjast með nokkrum hluta af vefsvæði kerfisins nema með skriflegu leyfi Advania og/eða ef slík þjónusta var keypt af Advania.
Það er með öllu óheimilt að nota nokkurs konar forrit, hugbúnað eða annars konar aðferðir til að heimsækja, nota eða leita að gögnum á vefsvæði kerfisins nema með almennum vöfrum (t.d. Firefox, Chrome, Opera eða Internet Explorer), almennum leitarvélum (t.d. Google eða Bing) eða samþættingu við vefþjónustuskil (API) kerfisins.
Það er með öllu óheimilt að trufla notkun annarra notenda sem nýta sér þjónustuna, eyða eða breyta efni sem aðrir hafa sent inn, gera eitthvað sem veldur óeðlilega miklu álagi á þjónustuna og tölvukerfið sem hún keyrir á eða nokkuð annað sem truflar eðlilegt aðgengi annarra notenda að þjónustunni.
Það er með öllu óheimilt að trufla, skerða eða á nokkurn hátt nýta þjónustuna með þeim hætti að slík notkun hafi skaðleg áhrif á Advania, viðskiptahagsmuni Advania, umhverfi, búnað og kerfi Advania eða truflar kerfisrekstur Advania og eftir atvikum viðskiptavina félagsins.
Advania áskilur sér rétt til að ákvarða hvort tiltekin samskipti teljast brjóta í bága við framangreindar reglur.
BROT Á SKILMÁLUM OG LÖGBROT
Verði notendur uppvísir að brotum á þessum skilmálum, misnotkun á kerfinu eða hegða sér á þann hátt að augljóst er að viðkomandi getur ekki eða ætlar ekki að uppfylla ákvæði þessa skilmála er Advania hvenær sem er, og án fyrirvara, heimilt að loka aðgangi slíks aðila að kerfinu og eftir atvikum eyða honum. Í slíku tilfelli verður notanda send tilkynning þess efnis á skráð netfang notanda. Riftun á þessum grundvelli undanskilur áskrifendur ekki frá greiðslu útistandandi gjalda.
Ef grunur vaknar að um lögbrot sé að ræða þá áskilur Advania sér rétt til tilkynna slíkt til yfirvalda.
HEIMSMARKMIÐ
Advania hefur undirritað hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum (https://www.unglobalcompact.org/). Advania áskilur sér rétt til að hafna eða slíta viðskiptum við áskrifendur sem eru með starfsemi sem brýtur í bága við hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum.
FRAMSAL
Advania er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur undir þessum samningi. Slíkt á ekki við um notanda, en notanda er ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að leyfa öðrum afnot af aðgangi sínum.
BREYTINGAR Á SKILMÁLUM
Advania áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum og munu breytingar verða tilkynntar notendum við næstu innskráningu eftir að breytingarnar taka í gildi. Ef notandi kýs að samþykkja ekki breytta skilmála mun notanda ekki lengur geta skráð sig inn á Signet.
LÖG OG VARNARÞING
Skilmálar þessir lúta eingöngu íslenskum lögum. Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna.
Ágreining um skilmála þessa skulu Advania og viðskiptavinur leitast við að leysa með samkomulagi. Ef ekki næst samkomulag skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
ALMENNIR VIÐSKIPTASKILMÁLAR ADVANIA
Um önnur atriði en fjallað er um í þessum skilmálum fer samkvæmt almennum viðskiptaskilmálum Advania sem finna má á www.advania.is/skilmalar.