Um Signet Transfer

Í heimi ört vaxandi ógnana frá tölvuþrjótum er stöðugt að verða áhættusamara að senda viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti eða með öðrum hætti yfir óvarið burðarlag. Ekki er lengur hægt að treysta á að upplýsingar sem sendar eru með tölvupósti eða álíka máta berist ekki röngum aðilum.

Margvíslegar upplýsingar eru af því tagi að ekki er forsvaranlegt að senda þær á milli með tölvupósti eða öðrum leiðum þar sem ekki er öruggt að upplýsingarnar fari ekki á flakk. Einnig eru margar upplýsingar þess eðlis að staðfesta verður að réttur aðili hafi fengið upplýsingarnar í hendur.

Til að mæta breyttum aðstæðum hefur Advania þróað miðlæga lausn sem er staðsett á öruggu neti Advania. Signet transfer virkar með þeim hætti að sendandi gagna notar vefskoðara sinn til að tengjast og auðkennir sig inn með rafrænum skilríkjum. Þegar inn er komið hleður sendandinn inn þeim gögnum (pdf, doc, xls, vsd, txt eða zip) sem senda á í gegnum Signet transfer og velur viðtakendur gagnanna. Þegar gögn eru send inn í Signet transfer eru þau dulkóðuð þannig að viðtakandi er sá eini sem getur opnað þau. Tölvupóstur fer á viðtakenda sem smellir á tengil í tölvupóstinum til að sækja skjalið. Áður en skjalið hleðst niður hjá viðtakanda þarf hann að auðkenna sig til að sanna að réttur viðtakandi sé að taka á móti gögnunum. Þegar viðtakandi hefur móttekið gögnin er viðkomandi gögnum eytt sjálfkrafa úr Signet transfer.